Myndlistarskóli Mosfellsbæjar (sem staðsettur er í Álafosskvosinni á hæðinni fyrir ofan Álafossbúðina), tekur þátt "Í túninu heima" með sýningu á verkum nemenda Soffíu Sæmundsdóttur úr fullorðinshópum. Nemendur Soffíu hafa margir verið í skólanum frá upphafi og mála af krafti og koma á hverju hausti til að bæta við sig og njóta þess góða anda sem er í skólanum á þessum einstaka stað. Sýningin er opin laugardag og sunnudag klukkan 13-17. Ljósakórinn undir stjórn Berglindar Björgúlfsdóttur flytur nokkur lög í húsnæði skólans á laugardeginum klukkan 13:30 , 15:30 og 16:30. Allir hjartanlega velkomnir.
Ljósakórinn er barnakór á vegum Lágafellssóknar og Mosfellsbæjar. Í kórnum eru stúlkur á aldrinum 11-13ára. Berglind Björgúlfsdóttir hefur stjórnað kórnum frá upphafi. Berglind er söngkona og barnakórstjóri, hún hefur kennt tónlist- og skapandi hreyfingu á leikskólum á höfuðborgarsvæðinu og í Bandaríkjunum, auk þess að hafa séð um tónlistarleikhús Kramhússins. Berglind söng í sópran-dúóinu Vocalisa ásamt Joyce S. Liu. Þær komu fram á tónleikum á San Francisco svæðinu í Kaliforníu og héldu tónleika víða hér á landi. Ljósakórinn syngur í Myndlistarskóla Mosfellsbæjar, á bæjarhátíðinni í Túninu heima, laugardaginn 25.ágúst klukkan 13:30, 15:30 og 16:30.
Skissunámskeið í Skálholtsbúðum helgina 20.-22. maí
Fyrir byrjendur og lengra komna Kennari: Anna Gunnlaugsdóttir Verð kr. 29.000 20 kennslustundir, gisting og fæði Námskeiðið hefst kl. 17:00 á föstudag og lýkur kl. 16:00 á sunnudag Lögð verður áhersla á að tileinka sér góð vinnubrögð í undirbúningi myndverks með ýmiskonar skissuvinnu, með blýöntum, kolum, pastellitum og akrýllitum, og öðru sem hugarflugið býður. Markmiðið er að þjálfa eftirtekt og persónulega sýn á umhverfi sitt sem viðfangsefni í markvissri myndsköpun. Skoðuð verða bæði smáatriði við fætur okkar, landslagið í fjarlægð og líka horft til himins og skýjafar og litbrigði í skýjunum rannsakað. Meistari Smári, kokkur með meiru, eldar ljúffengan kvöldverð föstudags og laugardagskvöld en morgunnmat, hádegissnarl og kaffi/te tökum við til sjálf og sjáum um allan frágang. Gist verður í eins manns herbergjum (sængur og koddar, ekki sængurver) Hámark 12 þátttakendur Gleðilegt ár kæru nemendur.
Eftir frábæra vinnu á haustönn er hugur í okkur að byrja nýja árið af krafti. Vorönnin fer nú senn að hefjast hjá okkur í Myndlistarskóla Mosfellsbæjar, en barnanámskeið byrja mánudaginn,17. Janúar og fullorðinsnámskeið viku síðar, eða í vikunni 24.- 27. janúar. Með þessu bréfi viljum við því koma þessum upplýsingum til ykkar sem voruð á námskeiðunum í vetur og þeirra sem sýnt hafa áhuga á að komast á námskeið en ekki komist, áður en við auglýsum á frekar. Síðasta skólaár var óvenju metnaðarfullt og endaði á vorsýningu skólans í Hraunhúsum sem vakti verðskuldaða athygli og nú í vor stefnum við á að setja upp nemendasýningu í skólanum og veitingastaðnum kaffi Álafoss, gera upp skólaárið 2010 - 2011, eiga skemmtilega opnum og borða saman. Skólastarf þetta árið verður með svipuðu sniði og verið hefur, en þó verða væntanlega ný námskeið þegar líða tekur á önnina og undir vorið, þar sem fyrirkomulagið verður þéttara og unnið í rikk að ákveðnum viðfangsefnum, eins og t.d. uppstillingar með nýstárlegri nálgun sem Pétur Gautur mun kenna á sinn persónulegan hátt en námskeið hanns á haustönn vakti mikla ánægju. (Frekari upplýsingar má sjá á peturgautur.is) Eins og áður er námskeiðið 11 skipti, 4 kennslustundir í senn, samtals 44 kennslustundir. Hver kennari skipuleggur námskeiðið, markmið og viðfangsefni og lagar að hópnum. Innritun er hafin og eins og áður er mikill áhugi fyrir hendi og því nauðsynlegt að hafa samband sem allra fyrst. Hafir þú þegar skráð þig er nauðsynlegt að staðfesta það í síma 6635160 eða á netfangið [email protected] og [email protected] (þeir sem fara á námskeið hjá Önnu), með öllum upplýsingum, nafni, heimilisfangi, kennitölu, netfangi og síma. Verð fyrir fullorðinsnámskeiðið er kr. 40.000 Við bjóðum Pétur Gaut velkomin til starfa en hann mun kenna olíumálun á miðvikudagskvöldum.
Pétur Gautur útskrifaðist frá málaradeild Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1991. Hann er þekktur málari og hefur stundað þá list um árabil og haldið fjölda sýninga hérlendis og erlendis. Pétur Gautur stundaði einnig nám í leikmyndahönnun hjá „Statens Teaterskole“ í Kaupmannahöfn 1991-1992. Meðal nýustu afreka Péturs er leikmyndin fyrir Rocky Horror Show fyrir Leikfélag Akureyrar frumsýnt sept 2010. Frekari uppl. er á peturgautur.is Námskeið á haustönn 2010. Uppstillingar – olíumálun fyrir byrjendur og lengra komna. Á þessu haustnámskeiði verður farið í grunnþjálfun olíumálunnar. Nemendur eiga að koma með málaradót sitt sem kennari mun yfirfara í fyrsta tíma og veita ráðgjöf fyrir frekari kaup. Farið verður lauslega yfir myndlistarsöguna, myndbyggingu, litafræði og persónulega tjáningu. Góð ráð verða gefin í tímunum , sem munu einkennast af heimilislegu andrúmslofti, léttu spjalli, kertaljósum og kaffiþambi í bland við ljúfa tóna. Allir nemendur í hópum fullorðinna í Myndlistaskóla Mosfellsbæjar eiga verk á vorsýningu í Hraunhúsum, Völuteig 6 í Mosfellsbæ. Þau eru valin af kennurum skólans og gefa góða hugmynd um þau fjölbreyttu viðfangsefni sem nemendur hafa verið að spreyta sig á. Óhætt er að segja að útkoman er einstaklega glæsilegt og mega bæði nemendur og kennarar vera stoltir af þessari glæsilegu sýningu.
Sýningin verður opin til sunnudagsins 2. maí, nema á mánudag. Opið er flesta daga frá kl. 11-17 og á fimmtudögum til kl. 22. Verið velkomin! |